Dreymir þig
um varanlegt
heimili?

Stígðu fyrsta skrefið og hjálpaðu okkur að meta þörfina fyrir fleiri Leiguheimili

 • Hvað eru Leiguheimili?

  Leiguheimili er nýtt og byltingarkennt kerfi að danskri fyrirmynd sem gerir meðaltekjufólki kleift að komast í langtímaleigu en greiðslur verða að meðaltali 20-30% lægri en markaðsleiga er í dag. Kerfið byggir á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir þar sem ríkissjóður og sveitarfélög leggja til 30–44% af eigin fé húsnæðis sem myndar ígildi eigin fjár í félögunum.

 • Hver borgar lækkunina?

  Stuðningur ríkisins er 18% en sveitarfélaga 12%. Stuðningnum fylgja skilyrði um að íbúðirnar skuli leigja út til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungunum.

 • Hverjir geta leigt?

  Til að geta sótt um Leiguheimili mega tekjur væntanlegs leigutaka ekki vera yfir meðaltekjum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum en ekki má segja íbúum upp leigunni þó að tekjur heimilisins fari yfir hámarkið síðar. Þetta getur því hentað vel þeim sem búa við háan húsnæðiskostnað og þurfa að komast í öruggt húsnæði til að geta lagt til hliðar og safnað fyrir útborgun á íbúð en jafnframt henta Leiguheimilin þeim sem einfaldlega vilja hagkvæman langtímavalkost á leigumarkaði.

  Tekjumörkin fyrir einstakling í Leiguheimiliskerfinu eru í dag 395.750 kr. í mánaðartekjur en þegar um er að ræða hjón eða par í sambúð eru mörkin 554.083 kr. Fyrir hvert barn hækka mörkin um 98.917 kr. á mánuði. Þannig eru tekjumörkin fyrir einstakling með tvö börn 593.583 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk með tvö börn 751.917 kr. og fyrir hjón eða sambúðarfólk með fjögur börn 949.750 kr. Ný tekjumörk verða gefin út árlega.

  Eignamörk eru 5.126.000 kr.

  Tekjumörk Árstekjur Mánaðartekjur
  Einstaklingur 4,749,000 395,750
  Einstaklingur með eitt barn 5,936,000 494,667
  Einstaklingur með tvö börn 7,123,000 593,583
  Einstaklingur með þrjú börn 8,310,000 692,500
  Einstaklingur með fjögur börn 9,497,000 791,417
  Hjón/sambúðarfólk 6,649,000 554,083
  Hjón/sambúðarfólk með eitt barn 7,836,000 653,000
  Hjón/sambúðarfólk með tvö börn 9,023,000 751,917
  Hjón/sambúðarfólk með þrjú börn 10,210,000 850,833
  Hjón/sambúðarfólk með 4 börn 11,397,000 949,750
  Fyrir hvert barn 1,187,000 98,917
  Eignamörk 5,126,000
 • Af hverju Leiguheimili?

  Margir búa við háan húsnæðiskostnað og þurfa að komast í öruggt húsnæði. Með tilkomu Leiguheimila getur fólk sem er undir ákveðnum tekjumörkum komist í langtímaleigu á verði sem er 20-30% lægra en markaðsverð á leigumarkaðnum í dag. Í sumum tilfellum getur húsnæðiskostnaður leigjenda, að teknu tilliti til húsnæðisbóta, orðið allt að helmingi lægri en nú er.

 • Hvenær get ég sótt um?

  Hægt verður að sækja um fyrstu Leiguheimilin í byrjun næsta árs en meginþungi uppbyggingarinnar verður á næstu 18-24 mánuðum. Þeir aðilar sem standa að Leiguheimilum á hverjum stað munu auglýsa umsóknarfresti en Íbúðalánasjóður mun einnig standa að kynningu á því hvar og hvenær eigi að sækja um. Hér á síðunni er hægt að skrá sig á póstlista til að fá slíkar tilkynningar.

 • Hvenær verða íbúðirnar tilbúnar?

  Gert er ráð fyrir að fyrstu Leiguheimilin fari í byggingu strax að lokinni úthlutun og að fyrstu íbúarnir geti flutt inn árið 2017. Flestar íbúðirnar verða tilbúnar árið 2018.

 • Hvað er stofnframlag?

  Stofnframlög eru veitt til byggingar eða kaupa á Leiguheimilum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn,
  ungt fólk, aldraða og fatlaða.

  Stofnframlög ríkisins munu nema 18% af stofnvirði eignarinnar og framlag sveitarfélags 12% sem getur falist í niðurfellingu á gjöldum sveitarfélags. Eitt af skilyrðum fyrir veitingu stofnframlags er að umsækjandi hafi þegar fengið samþykkt stofnframlag hjá sveitarfélagi.

  Stofnframlagið getur verið veitt til húsnæðissjálfseignarstofnana, sveitarfélaga, lögaðila í eigu sveitarfélaga og annarra lögaðila sem uppfylla ákveðin skilyrði.

 • Hvar verða íbúðirnar?

  Íbúðirnar verða staðsettar um allt land.

 • Hversu margar íbúðir er um að ræða?

  Miðað við þá fjármuni sem þegar eru í ríkisfjármálaáætlun þá verða allt að 3.200 Leiguheimili fjármögnuð með stofnframlögum á árunum 2016-2022.

Þú hefur verið skráð/ur!

Takk fyrir að skrá þig á póstlistann okkar. Við munum stöku sinnum senda þér fréttir af framvindu verkefnisins.

Takk fyrir

Við höfum fjarlægt skráningu þína á tölvupóstfangalista Leiguheimila. Þú getur skráð þig aftur á leiguheimili.ils.is

 • Með því að samþykkja þessa skilmála veitir viðkomandi (hér eftir nefndur notandi), Íbúðalánasjóði leyfi til að vinna með upplýsingar sem veittar eru á vefnum https://leiguheimili.ils.is Vinnsla upplýsinga sem notandi veitir er til þess að Íbúðalánasjóður geti metið þörf á leiguhúsnæði samkvæmt lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir.
 • Auk þess veitir notandi Íbúðalánasjóði heimild til að miðla upplýsingum sem aflað er á vefnum áfram til vinnsluaðila sem hafa gert þjónustusamning við Íbúðalánasjóð um vinnslu upplýsinga sem notandi veitir.
 • Íbúðalánasjóður ber lagalega ábyrgð á vinnslu og meðferð persónuupplýsinga sem notandi veitir og tryggir persónuvernd með því að leitast við að uppfylla á hverjum tíma lög og reglugerðir sem lúta að persónuvernd, þ. á m. lög nr. 77/2000, m.a. með mótun upplýsinga- og öryggisstefnu og setningu þeirra öryggis- og verklagsreglna sem þar er krafist. Íbúðalánasjóður hefur starfrækt vottað stjórnunarkerfi um upplýsingaöryggi samkvæmt alþjóðlegum staðli ISO/IEC 27001 m.a. til að tryggja öryggi persónuupplýsinga.
 • Þá er vakin athygli notanda á því að um upplýsingarétt þess sem persónuuplýsingar eru skráðar um gilda ákvæði 18. og 19. gr. laga nr. 77/2000 og enn fremur er athygli vakin á því að ef skráðar hafa verið persónuupplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar, eða persónuupplýsingar hafa verið skráðar án tilskilinnar heimildar, ber Íbúðalánasjóði skylda til að sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef upplýsingarnar séu rangar eða ófullnægjandi.
 • Notandi getur hvenær sem er afturkallað samþykki sitt til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæði þessu en með því að samþykkja skilmála þessa lýsir notandi því yfir af fúsum og frjálsum vilja að hann sé samþykkur vinnslu þeirra upplýsinga sem notandi veitir á vefnum https://leiguheimili.ils.is og að honum sé kunnugt um tilgang vinnslunnar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð og um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt.
 • Upplýsingarnar eru varðveittar eins lengi og þeirra er þörf vegna vinnslu og lög mæla fyrir.